byfluga.is

HAUSTVERKEFNI

Texti og grafík: Ingvar Sigurðsson

Býflugur gefa frá sér hita. Í kjarna klasans getur hitinn verið 34°C. Þegar heitt loft stígur upp frá flugunum þéttist það neðan á þakplötunni ef hún er illa einangruð

Þegar býflugurnar undirbúa sig fyrir komandi vetrarmánuði þarftu að gera eftirfarandi:

Kannaðu ástand búsins með því að ganga úr skugga um að drottningin sé þar. Ef að erfitt er að finna drottninguna er auðveldasta leiðin að finna egg. Eitt nýorpið egg í hólfi þýðir að drottningin hefur nýlega verið þar. Lirfa, getur verið 3-8 daga gömul. Með því að finna lirfur, er engin trygging fyrir því að þú hafir lifandi drottningu.

 

Um haust eru fá egg og lirfur og langt á milli þeirra. Í því tilviki er best að finna drottninguna til að vera viss um að hún sé á lífi. Athugaðu hvort býflugurnar hafi nóg af hunangi í lokuðum hólfum fyrir veturinn. Hunang er nauðsynleg til að býflugur lifi af veturinn því það er hitafjafi þeirra. Án þess munu þær ekki lifa veturinn af. Búin þurfa um það bil 16 til 18 kíló eða meira af hunangi fyrir veturinn.

 

Gefðu sykurvatn ef býflugurnar þurfa á því að halda. Hlutfall sykurs og vatns er 2 á móti 1. Þá leysir maður upp 2 hluta sykurs í 1 hluta vatns. Býflugurnar nota þessa blöndu þar til veður kólnar. Þá fara þær að daga sig saman í þétta þyrpingu. Á þeim tímapunkti er hitastigið of lágt fyrir býflugur til að yfirgefa þyrpinguna. Þær sækja því ekki meira í fóðurtrogið. Markmiðið er að láta fóðurtrogið duga þar til í september. Haltu áfram að fóðra býflugurnar þar til þær hafa tekið niður það magn sem þú reiknaðir út að þær þurftu.

Undir þakplötu er einangrun og einangrunardúkur með loftgötum. Viðarkurl dregur í sig raka sem síðan gufar upp í gegnum einangrun. Fóðurrammi geymir sykurmassa sem auka fóður ef hunang klárast.

 

Búðu til góða loftræstingu. Á veturna er hitastigið í miðju þyrpingarinnar haldið við 30 – 34°C. Án fullnægjandi loftræstingar leitar hlýja og raka loftið upp úr þyrpingunni, lendir á kaldri loftplötunni, þéttist og drýpur niður á býflugurnar sem ískalt vatn. Ef þetta gerist munu býflugurnar kólna of mikið og deyja. Haltu búinu þínu þurru með því að gera eftirfarandi:

 

Lyftu toppplötunni aðeins með því að setja eldspýtu eða nagla undir hvert horn. Þetta einfalda ráð gerir loftrýmið nokkra millimetra milli efstu brúnar hólfa og plötunnar. En ekki gera þetta fyrr en í býflugurnar eru ekki lengur að koma með propolis; annars líma þær vandlega í allar rifur.

 

Búðu til skjólvegg til að hlífa býkúpunni yfir veturinn. Það er gott að setja einangrunarlag utan um býkúpuna til að minnka kulda í búinu.

Bættu músavörn við flugopið á býflugnabúinu.

 

Nú er hampur ræktaður á íslandi. Grófur hampmulningur dregur sex sinnum meiri raka í sig en viðarspænir og ætti að geta gagnast vel í býkúpum.

 

Kísilkúlur (Sodium Silicate – Silica Gel) dregur í sig mikinn raka. Það er hægt að þurrka gelpúða á ofni og nota aftur.

SAMEINING – TVÖ BÚ Í EITT


Hafðu í huga að það er bráð nauðsyn að fara inn í veturinn með sterkt bú; þau hafa miklu meiri möguleika á að komast í gegnum erfiða og kalda mánuði. Ef þú ert með slakt býflugnabú geturðu sameinað það með öðru sem er sterkara. Ef þú ert með tvö veik bú geturðu sameinað þau til að búa til eitt öflugt bú. En þú getur ekki bara hent býflugunum frá einu býflugnabú í annað. Ef þú gerir það þá verður allt vitlaust í búinu. Þú þarft að sameina tvö bú hægt og kerfisbundið svo að lykt býflugnanna renni saman smátt og smátt. Besti tíminn til að sameina býflugnabú er snemma á haustin.

Algengasta aðferðin til að sameina tvö bú er dagblaðsaðferðin. Ein síða úr dagblaði aðskilur tvö bú sem þú sameinar. Fylgdu þessum ráðum til að sameina býflugnabú:

Finndu út hvort búið er sterkara. Hvort búið hefur mestan fjölda býflugna? Þegar þú hefur fundið það út sérðu hvort búið verður ráðandi. Sterkara búið helst á upprunalegum stað.
Blástu reyk í veikara búið og opnaðu það. Leitaðu að 10 bestu römmum til að setja í einn kassa. Bestu rammarnir eru þeir sem eru með mest af lokuðum púpuhólfum, egg og/eða hunang.
Blástu reyk í sterkara búið og opnaðu þaðFjarlægðu topplokið og innri plötuna og settu eina örk/blað úr dagblaðinu ofan á efstu rammana. Búðu til nokkur göt með blýanti eða penna á pappírinn til að býflugurnar geti farið fram og til baka milli sterka búsins og þess veikara sem þú ert að fara að setja ofan á.

Taktu veika búið, sem nú inniheldur 10 valda ramma af býflugum og ungviði, og settu hann beint ofan á sterka búið. Gerðu þetta að kvöldi þegar allar býflugurnar eru komnar heim í býflugnabúið. Aðeins gatað blað skilur nú að sterka og veika búið.


Kannaðu stöðu búsins eftir eina viku. Dagblaðið hefur verið nagað í burtu og bæði búin hafa sameinast í eitt sterkt bú. Veikari drottningin heyrir nú sögunni til og aðeins sterkari drottningin er eftir.

Settu fóðurtrog ofan á efsta kassann og fylltu af sýrópi  eða sykurmassa. Settu milliplötuna á fóðurtrogið til að forðast ránflugur og önnur skordýr og settu síðan þakið á.

Sameinaðu nú ramma úr kössunum þremur. Taktu alla ramma með ungviði og settu í tvo kassa.

Farðu í gegnum alla ramma og veldu 20 bestu rammana af hunangi, frjókornum og ungviði. Raðaðu þessum römmum í neðri tvö hólfin. Rammar sem innihalda að mestu leyti ungviði fara í neðri kassann og rammar með mestu hunangi fara í efri kassann. Hristið býflugurnar af 10 afgangsrömmum í neðri tvö hólfin. Geymdu þessa ramma og þriðja kassann til vara.

Drottningin er umkringd þúsundum þerna sem halda hita á henni í miðjum vetrarklasanum. Klasinn byrjar í ungviðahólfinu þegar umhverfishitastig nær 12 til 14°C. Þegar kólnar í veðri færist klasinn í miðju búsins. Það nær yfir efri rammalista í neðri hólfinu og nær yfir botnlista á ramma í efri hólfinu. Ef þú ert að vetursetja á einum kassa myndast klasinn ofarlega í miðju kassans.

Engir drónar eru í býflugnabúinu á veturna, en nokkrar vinnuflugur byrja að láta á sér kræla seinnipart vetrar. Býflugurnar neyta ekki stórs hluta forða síns yfir veturinn. Þær éta það sem er næst þeim á meðan þær eru í þyrpingunni, hreyfast um sem þyrping þegar umhverfishitinn hækkar yfir 7°C. Þær geta aðeins fært sig til nýja hunangssvæðisins þegar veðrið hlýnar til að þær geti leyst upp klasann. Þegar komið er fram í mars eykst neyslan á hunangi þegar drottningin fer hægt og rólega að auka varpið. Býflugurnar fara að fljúga út úr búinu í hreinsunarflug og til að safna vatni, en það er lítið fyrir þær að hafa. Ef býflugurnar væru ekki fóðraðar á haustin mundu þær svelta á þessum tíma.

Býflugur skíta ekki í býflugnabúinu. Þess í stað halda þær í sér þar til þær geta yfirgefið býflugnabúið á fallegum, mildum degi þegar hitinn fer yfir 10 gráður.

Að vori þarf að fylgjast með innflugsopinu. Fjarlægðu allt sem getur hindrað innganginn, svo sem dauðar býflugur eða snjó.

Vertu viss um að býflugurnar hafi næga fæðu. Síðla vetrar og snemma vors er þegar búin geta drepist úr hungri.