byfluga.is

HAUSTFÓÐRUN

Texti: Ingvar Sigurðsson

Það þarf að huga að mörgu þegar bú eru undirbúin fyrir haust og vetur. Það sem ég hef heyrt á nokkrum býbændum, viðhafa þeir kolvitlausar aðferðir miðað við það sem gert er víða erlendis. Þess vegna langar mig til að benda á mjög fræðandi myndband sem ég sá á Youtube. Þar er Úkraínskur maður að nafni Andrew og býr á Írlandi. Hann er með Youtube svæði sem kallast Irish Bee. Hér er stuttlega endursagt það sem hann segir frá í myndbandinu.


Þegar hunangskassar eru teknir á haustin til vinnslu hefur safnast fyrir hunang og það hefur dregið úr varpi hjá drottningunni. Þar skapast nokkur hætta fyrir búið vegna þess að allar býflugur sem eru sýnilegar í ágúst-september munu drepast fyrir veturinn. Þetta eru sumarflugur en ekki vetrarflugur. Nú þarf að undirbúa að vetrarflugurnar klekist út.


Hér er tekið dæmi um bú sem situr á tveimur varpkössum. Allar býflugur eru hristar úr römmum í efri kassanum. Býflugurnar eru látnar fara í neðri kassann. Rammar úr efri kassanum sem eru með hunangi eru tæmdir í slengivél, nema þeir rammar sem innihalda egg, lirfur og púpur. Tómu rammarnir eru settir aftur í efri kassann.

Hér er hægt að sjá myndband frá Andrew þar sem hann talar um haustfóðrun: Smella hér

Fóðurtrog er sett ofan á efri kassann. Það þarf að örva varp drottningarinnar eins mikið og unnt er í tvær til tvær og hálfa viku.

Það þurfa að vera 5-6 tómir rammar í efri kassa. Það þarf að gefa 4-500 grömm af sykursýrópi (1:1 til 1:1.5) daglega fyrir sterk bú. Þetta hvetur drottninguna til að verpa meira.

Ef það eru settir 3 lítrar eða meira af sýrópi í fóðurtrogið, þá draga býflugurnar það niður á einum sólarhring, fylla alla rammana sem voru settir tómir í kassann. Þetta virkar ekki örvandi á drottninguna. Örvun felst í að setja litla skammta á hverjum degi.

Eftir tvær vikur er skoðað í rammana og ef að drottning hefur verpt í flest hólfin viljum við ekki að drottningin verpi meira. Það er gert með því að gefa þeim 3 lítra af sýrópi eða meira. Býflugurnar munu draga það allt niður á um það bil sólarhring og það stöðvar varpið algjörlega. Þegar ungviði skríður úr þessum hólfum hefur safnast nægilega mikið af ungviði sem verður að “vetrarflugum”. Þær munu lifa fram á næsta vor.