byfluga.is

LÁRÉTTAR BÝKÚPUR

Texti: Ingvar Sigurðsson

Horizontal_hive

Fedor Lazutin

Láréttar býkúpur hafa verið þróaðir í mismunandi stærðum í gegnum tíðina. Þekktasta útgáfan var þróuð af Georges de Layens (f.1834 – d.1897) sem eyddi næstum tveimur áratugum í að hanna hina fullkomnu býkúpu. Hann var Franskur grasafræðingur og sérfræðingur í býflugnaræktun. Nú, um það bil 160 árum seinna, eru býkúpur af þessari gerð notaðar um alla Evrópu og sífellt fleiri nota hana á köldum svæðum í norðanverðri Ameríku. Til að gera sér grein fyrir vinsældum láréttra býkúpa má geta þess að í dag eru notaðar um ein milljón Layens býkúpa á Spáni.

 

Þegar ég fór að kanna upplýsingar um býkúpur fyrir köld svæði, tók ég eftir að láréttir kassar eru mikið notaðir. Oft var vitnað í bók sem var skrifuð um þetta efni „Keeping Bees With a Smile“. Hún er eftir Fedor Lazutin – rússneskan býræktanda sem bjó í Kaluga-héraði u.þ.b. 240 km frá Moskvu. Bókin var fyrst gefin út árið 2009 á rússnesku og síðar þýdd yfir á ensku árið 2013 af Dr. Leo Sharaskin sem býr í Bandaríkjunum. Fedor Lazutin dó árið 2015, langt fyrir aldur fram. 

Lazutin og eiginkona hans, Lena, héldu um það bil 100 býflugnabú. Þau hófu býflugnaræktun með Kákasus býflugum í Dadant býkúpum sem eru ekki ólíkar djúpum Langstroth kössum. En hann varð fyrir svo miklum afföllum að hann ákvað að leita betri leiða við ræktunina. Í kjölfarið fór hann að rannsaka sögu býræktunar í Rússlandi til að sjá hvernig hlutirnir voru gerðir í fortíðinni. Þá komst hann að því að fyrir tíma Sovétríkjanna voru notaðar allt aðrar býkúpur. Þar að auki voru notaðar dökkar evrópskar býflugur (Apis Mellilfera Mellifera). Þær hafa verið í norður-evrópu frá því að ísöld lauk, Englandi, Írlandi, Frakklandi, Póllandi, Þýskalandi, Rússlandi o.s.frv. Lazutin tók eftir að Kákasus býflugan var ekki eins vel aðlöguð köldu loftslagi og stuttum blómgunartíma. Í kjölfarið skipti hann yfir í dökku evrópsku býflugna.

 

Þegar yfirvöld í sovétríkjunum skylduðu bændur til að rækta býflugur, fóru menn að flytja inn suðrænar býflugur sem mun þægilegra var að umgangast heldur en dökku evrópsku býfluguna sem gat verið ansi árásargjörn. Í dag eru svæði með dökkum býflugum mun sjaldgæfari en áhugi á að forða þeim frá útrýmingu eykst með hverju ári. Þar að auki er unnið að ræktun drottninga sem gefa af sér rólegri afkvæmi.

 

Þegar Lazutin smíðaði fyrstu láréttu býkúpurnar sínar notaði hann áfram Dadant rammana sem hann átti fyrir. Málin sem hann ákvað að hafa á kössunum standast mál Dadant ramma í dag. Þar að auki hefur hann haft dýptina miðað við að hann gæti notað tvo ramma í hæð. Út frá því smíðaði hann heila ramma fyrir ungviðið en notaði tvöfalda ramma fyrir hunangssöfnun. Þannig hefur hann getað notað slengivél sem hann hefur átt fyrir. 

Lazutin mælti með því að byggja býflugnabúið með tvöföldum veggjum og hafa 38–50mm einangrunarplast (1.5-2 tommur) á milli innri og ytri klæðningar. Hann sagði að 50mm einangrun jafngilti 12-15cm þykkum viði. Hins vegar gæti maður líka notað náttúruleg efni eins og hörtrefjamottur eða kindaull. Steinull er líka góð einangrun en hún er að sjálfsögðu þyngri en einangrunarplast. Lazutin notaði ekki netbotn yfir veturinn vegna þess að þá verður kaldara í búinu. Til að safna raka sem verður við uppgufun úr hunangi og vegna efnaskipta í býflugunum, notaði hann sérútbúinn ramma sem innihélt 5kg af kísilkúlum, Silica Gel, sem er sett við skilrúmið (nær miðju búsins). 

Silica Gel kannast margir kattareigendur við sem hvítar kúlur sem notaðar eru í staðinn fyrir kattasand. Einnig kemur Silica Gel í litlum pokum með mörgum raftækjum, myndavélum og öðru sem þolir ekki mikinn raka. 

Önnur aðferð við að safna raka er að vera með skúffu á gólfi kassans og hafa í því mómold eða það sem garðyrkjumenn kalla stundum Sphagnum og er innflutt mómold sem hefur verið sótthreinsuð (fæst í garðyrkjustöðvum). Mómoldin getur dregið í sig nokkra lítra af vatni í svona býkúpu. Þeir sem nota skúffur í kössum hafa gjarnan lúgur á hlið kassans til að skipta út skúffum. Mómold og/eða Silica Gel er líka gott að setja ofan við rammana. Púðar með Silica Geli er hægt að þurrka á ofni og nota aftur.

Efst til vinstri er lengd á Langstroth ramma. Næst kemur Dadant og þar fyrir neðan er Lazutin sem er jafn langur en tvöfalt dýpri. Layens ramminn er vinstra megin við hann. Hann er talinn henta betur þar sem vetur eru ekki eins langir og kaldir.

 

KOSTIR LÁRÉTTRA BÝKÚPA

  •          Lágmarks truflun á ungviðasvæði þar sem ekki þarf að opna allt búið við skoðanir.
  •          Auðvelt er að stækka eða minnka bústærðina án þess að raska loftslagi í varpsvæði. Þetta er alveg öfugt við lóðrétt býflugnabú, sérstaklega í köldu loftslagi þar sem rask á kössum getur kælt egg, lirfur og ungviði. Sama getur líka gerst þegar kassar eru teknir í sundur að hausti.
  •          Býflugur neyta minna hunangs á veturna í einangruðu búi vegna þess að þær leggja ekki jafn mikið á sig til að halda hita.
  •          Á meðan skoðun á búi stendur kremjast færri býflugur þegar unnið er í því. Engar þungar lyftingar á hunangskössum eða varpkössum. 

ÓKOSTIR  LÁRÉTTR ABÝKÚPA

  • Venjulegar slengivélar taka ekki extra djúpa ramma (Lazutin- og Layens ramma). Ef tveir venjulegir eru skrúfaði saman til að mynda hæðina, þarf að skrúfa þá í sundur.
  • Erfitt að færa býflugnabúið. Nánast ómögulegt að hreyfa bú á sumrin þegar það er fullt af hunangi. Jafnvel tómt býflugnabú þarf fleiri en einn mann til að færa það.

Hér er myndband sem sýnir mismunandi stærðir ramma sem hægt er að hafa í láréttum kössum – Langstroth, Leyens og Lazutin: Smellið hér