byfluga.is

 

Hvað er Slóvensk býkúpa?

Texti: Ingvar Sigurðsson

 

Slóvenía er fjöllótt land og það hefur meðal annars orðið til þess að slóvenskir býflugnaræktendur hafa þróað ræktun sína á annan hátt en flestir aðrir.

Slóvenska býkúpan er stundum kölluð AZ kúpa eftir Alberti Znidersič sem upphaflega þróaði þessa gerð. Fyrsta útgáfan hans sá dagsins ljós árið 1903. Þá bjó hann til 9 ramma býkúpu. Kassinn sem hýsir rammana lítur næstum út eins og eldhússkápur. Þetta þýðir að til að taka rammana úr svona kassa þarftu að draga þá lárétt út frekar en upp úr toppi kassans eins og úr flestum öðrum býkúpum.

 

Þessi kassi hefur tvær eða fleiri stæður/hæðir af römmum. Neðsta stæðan er þar sem drottningin verpir og elur upp ungviði. Efri rammastæðurnar eru fyrir hunang. Rammarnir sem notaðir eru í Slóvenskri kúpu eru ólíkir flestum öðrum römmum. Stærðin er önnur og efri og neðri listar rammans eru íhvolfir til að forðast að kremja býflugur þegar rammarnir fara inn og út úr kassanum. Einnig minnkar það þann flöt sem býflugurnar reyna að líma saman með propolis. Ef að flugurnar líma ramma við málmstangir sem þeir hvíla á, losna þeir auðveldlega af því að viður og málmur límist illa saman. Inni í framhlið kassans eru málmrenningar sem eru þannig sniðnir að rammarnir falla inn í skorur sem viðhalda nægu bili á milli þeirra.

 

Venjulega er þessum kúpum komið fyrir í þar til gerðum kofum eða skýlum. Í meginatriðum er það útihús með nokkrum býkúpum sem mynda þann vegg sem snýr í suðurátt. Það er líka hægt að koma sér upp minna skýli með þaki. En þá þyrfti að smíða einangraðar býkúpur sem mundu henta betur veðráttunni hér.

Það er mjög eðlilegt fyrir býflugurnar að búa í svona kassa. Öll vinna við búið truflar þær minna en í venjulegri kassastæðu – samanber Langstroth og aðrar sambærilegar býkúpur.

 

Ættir þú að koma þér upp Slóvenskum býkúpum?

Slóvenskar býkúpur er bókstaflega Guðsgjöf fyrir fólk sem hefur ekki fulla heilsu eða líkamsstyrk. Vinna með þessi bú krefst mun minni fyrirhafnar en hefðbundin Langstroth býflugnabú. Í Slóveníu eru jafnvel 90 ára gamlir býræktendur sem nota þessi bú, svo aldur er ekki lengur hindrun fyrir þetta áhugamál eða starfsgrein. Einnig eru margir með skerta hreyfigetu en geta samt annast áhugamál sitt í hjólastólum.

Vegna kostnaðar við að koma upp nauðsynlegum húsakosti fyrir búin er áhugaverð hugmynd að fólk stofni félag og taki sig saman um svona byggingu hvort sem byggt er úr timbri eða notaðir vörugámar sem hýsingu utan um býkúpurnar

 

KOSTIR

Minna ónæði fyrir býflugurnar.

Besta leiðin til að lýsa streitu sem býflugurnar verða fyrir við skoðun er að sjá fyrir sér sitt eigið hús. Þegar þú opnar glugga kemur aðeins lítill andvari inn. Lofthitinn breytist lítið og það tekur aðeins stuttan tíma fyrir hitastigið inni í húsinu þínu að hitna (eða kólna) aftur þegar glugganum er lokað. Ef allt þakið væri fjarlægt færi hitastigið í húsinu í það sama og hitastigið úti. Það myndi líka taka mjög langan tíma fyrir hitann inni í húsinu að fara aftur í það sem það var þegar þakinu var svipt af. Þetta er besta leiðin til að bera saman skoðun á Langstroth búi við skoðun á AZ búi.

 

Með Langstroth býkúpu þarf að aðskilja alla kassa. Þetta veldur miklum hitabreytingum innan býflugnabúsins og veldur miklu álagi á býflugurnar. (Ath. egg og lirfur þurfa 35°C). Þegar skoðað er í AZ býflugnabú er bara opnuð hleri á hverri rammahæð og einn rammi fjarlægður í einu. Þetta er gert á þeirri hlið sem snýr inn í húsið sem býkúpurnar eru vistaðar í. Álagið sem býflugurnar verða fyrir er mun minna en í Langstroth búi. Býflugurnar stressast minna og eru ólíklegri til að vera árásargjarnar. Þetta þýðir að auðveldara er að vinna við þau við skoðanir.

 

Aukin hunangsuppskera

Að hýsa AZ bú í býflugnahúsi heldur hitastigi í kringum kassann stöðugri. Býflugurnar þurfa ekki að eyða eins miklum tíma og orku í að hita og kæla búið. Á vorin og sumrin þýðir þetta að meiri tími gefst fyrir þær í að leita að fæðu og búa til hunang. Á haustin og veturna þurfa býflugurnar ekki að leggja eins hart að sér til að halda búinu heitu. Minni orkuáreynsla þýðir að þær neyta minna hunangs yfir veturinn. Þetta þýðir að þú getur skilið eftir færri ramma af hunangi til að yfirvetra með góðum árangri. Þess vegna eykst hunangsuppskera þín á hvert bú. Hunangsframleiðslan er líka meiri af því að flugurnar nota ekki eins mikið propolis í AZ býkúpum.

 

Skoðaðu bú þín hvenær sem þú vilt

Að vera með býflugur í húsi þýðir að skoðanir í búin eru ekki lengur háðar veðri. Þetta kemur bæði býflugum og býbónda til góða. Á vindasömum dögum eða í rigningartíð geturðu opnað bú þín án þess að óttast að kæla búið of mikið niður. Það eru ekki bara býflugurnar sem verða minna fyrir áhrifum veðursins, eigandinn getur líka unnið í ró og næði. Það er líka miklu auðveldara að sinna býflugunum á kvöldin þegar þú ert með býflugnahús með ljósum í, fullkomið fyrir fólk eftir langan vinnudag utan heimilis.

 

Meira skjól fyrir veðrum

Vetur geta verið erfiðir á íslandi og það er ömurlegt að missa bú. Lifun búsins getur farið eftir umhverfinu sem þú býrð í. Veðrið er óútreiknanlegt og það skiptast á frost og þýða og vindkæling getur verið mikil. Þetta leiðir til þess að það þarf að eyða tíma og peningum á haustin í að einangra hefðbundin býflugnabú. Í Slóvenskri kúpu sem er í skýli eru býflugurnar verndaðar fyrir veðrum. Þess vegna upplifa þær mun minni hitasveiflur í mismunandi árstíðum. Það er mjög sjaldgæft að missa bú yfir veturinn þegar þessar kúpur eru notaðar.

Notaðu minni reyk við skoðanir

Býflugur eru vanar því að nota framhlið býkúpunnar og eru síður meðvitaðar um aðgerðir sem eiga sér stað aftan við búið. Þetta þýðir að það þarf minni reyk við skoðanir.

 

 

Auðveldara að fóðra

Venjulega eru AZ býkúpurnar smíðaðar þannig að í þeim er innbyggður fóðrari í neðst hurðinni aftan á búnum. Að hafa þennan möguleika á fóðrun gerir það mun einfaldara og hreinna ferli. Og vegna þess að þú ert að fóðra inni í býhúsinu eru mun minni líkur á að bú ræni fóðri hvert frá öðru.

 

 

Rán úr AZ búi er mun minna

Þegar AZ bú er fóðrað er sykursýróp eða deig sett í þar til gerð fóðurhólf sem er við innri hurð búsins. Þegar fóður er sett aftan við býflugnabú geta býflugur úr öðrum búum síður fundið lyktina af sírópinu. Þær þurfa líka að ferðast framhjá varnarbýflugunum djúpt inn í býflugnabúið til að komast í sírópið.

Aðgangur að hverri rammastæðu fyrir sig

Afturhlið Slóvenskra býkúpa er útbúin með hurð. Þar fyrir innan eru gluggarammar með neti sem loka hverri hæð aftan á búnum. Þar er aðgengi að römmum. Þetta tryggir að lágmarksfjöldi býflugna sleppur aftan úr býflugnabúinu meðan á skoðun stendur. Þar sem sóknarflugur fara inn og út um opin framan á býkúpunni, verða þær minna varar við að unnið sé við búið að aftanverðu.

 

Minna erfiði

Það getur verið erfitt fyrir sumt fólk að lyfta þungum hunangskössum. Mun léttara er að vinna í búi þar sem hægt er að fara beint í rammastæðuna sem maður vill kanna og draga rammana lárétt út.

ÓKOSTIR

Ekki samhæft við aðrar býkúpur

Rammar í Slóvenskum býkúpum eru af annarri stærð og gerð en Langstroth sem er algengasta gerðin. Þó hafa margir smíðað kassa sem geta tekið Langstroth ramma. Þá eru hornin á efri listanum oft sagaðir af og rammarnir látnir standa á stálteinunum eins og hefðbundnir Slóvenskir rammar. Ef, af einhverjum ástæðum, fólk vill nota rammana seinna í Langstroth kassa er hægt að krækja á þá plasthornum í stað þeirra sem voru sagaðir af.

Kostnaður

Til að nýta alla kosti Slóvenskra kúpa þarf að smíða hús utan um þau – eða skýli. Á móti byggingakostnaði við húsið er að býflugurnar munu lifa betur af á veturna þegar þær eru settar í býhús, og ætti það að vega á móti kostnaði.


Meiri umönnun

Sá sem er með Slóvenskar kúpur mun þurfa að fylgjast meira með hunangssöfnunni þegar blómgun er mest í náttúrunni. Þetta er vegna þess að ef pláss fyrir hunang í römmum fyllist, er hætta á að búið svermi. Með hefðbundnu búi myndirðu einfaldlega bæta við fleiri hunangskössum. En í Slóvensku búi þarftu að skipta út nægilega mörgum hunangsfylltum römmum og slengja úr þeim hunangið eða setja í kæli þar til meira hunang er slengt að hausti. En það mætti útbúa auka kassa sem væri settur ofan á búið og hafa gat á milli efri og neðri kassa til að leysa þetta mál.

Ekki eins færanlegt

Þegar Slóvenskar kúpur eru notaðar í býflugnahúsi getur verið mun erfiðara að færa búin og koma þeim fyrir aftur. Þetta þýðir að þú hefur ekki þann sveigjanleika sem þú gætir haft með hefðbundnu búi, að geta endurstaðsett þau þegar vandamál koma upp.

 

Hannað fyrir Slóvenskar aðstæður

Aðstæður til býræktunar eru mjög mismunandi eftir löndum. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar en í Slóveníu. Sem dæmi má nefna að frjókornatímabililð í Slóveníu er lengra og stöðugra en sá stutti tími sem við fáum á Íslandi. Á móti kemur að dagsbirtan yfir sumarið hjá okkur er lengri og býflugurnar geta unnið lengur á hverjum sólarhring. Í norður-ameríku hafa menn því smíðað býkúpurnar þannig að þær séu nægilega háar til að taka einni rammastæðu meira en í Slóveníu. Það er ekki ólíklegt að slíkt þurfi að gera líka á íslandi.

Gætu slóvenskar býkúpur hentað betur en hefðbundnir Langstroth kassar hér á landi?